Við erum búin að eiga rólega hvítasunnuhelgi í bústaðnum, allt of rólega ef kannski.
Það eru venjulega engin verkefni sem við tökum með okkur í bústaðinn, nema ef brýn nauðsyn ber til, eins og að bera á pall eða hús, eða bera áburð á landið, það var það eina sem við gerðum þessa helgi, bárum áburð á restina af hektaranum þar sem við vorum ekki með nægan áburð síðast þegar við komum.
Við fórum einnig í BYKO að kanna pallaefni - því okkur (mig) langar til að klæða af pallinn mynda smá skjólvegg til að geta nú legið í sólinni eða setið útivið og borðað og sleppa við norðan næðinginn.
Handavinnan sem ég tók með hingað var svuntan sem ég saumaði um síðustu helgi, og er ég búin að sitja við og kappmella í kring um munstrið, ég ætlaði að gera þetta í saumavélinni, í fyrstalagi átti ég ekki nógu fallegan tvinna og í öðru lagi þarf ég góða æfingu áður en ég hefst handa í vélinni. Þannig að ég er komin með auma fingurgóma, síðan hef ég verið að prjóna úr Kauni garninu, ég er alltaf með sömu hespuna, byrja á einhverju sem ég er ekki nógu ánægð með og rek upp, núna er það trefill með auðveldu munstri, garnið er það dökkt á köflum að mér finnst erfitt að sjá hvað ég hef verið að prjóna.
Gróðurinn hefur tekið vel við sér hér í sveitinni, aspirnar langt komnar á veg með laufgun og sama með birkið. Við þurfum að taka með okkur sláttuvélina og sláttuorfið hingað næst til að slá blettinn.
Þangað til næst - hafið það gott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli